Dow Jones hlutabréfavísitalan bandaríska sló met í dag þegar hún náði 14.273 stigum um hádegisleytið í Bandaríkjunum í dag. Hefur vísitalan aldrei farið hærra innan dags, en síðasta met var sett í október 2007, þegar vísitalan fór í 14.198 stig innan dags.

Hafa ber þó í huga að vegna hækkandi verðlags frá þeim tíma er verðgildi hlutabréfa á markaði í raun ekki það sama og það var fyrir fimm og hálfu ári. Með mjög mikilli einföldun má segja að 14.198 stig árið 2007 jafngildi um 15.400 stigum í dag, en þessi tala er fengin einfaldlega með því að taka hækkanir á neysluverðsvísitölu inn í reikninginn. Raunveruleikinn er væntanlega öllu flóknari.

Hækkunin er þó til marks um aukna trú fjárfesta á bandaríska hagkerfinu og er umtalsverð í ljósi þess að lægst fór Dow Jones vísitalan í um 6.550 stig í marsmánuði 2009.