Dow Jones hlutabréfavísitalan fór í morgun yfir 18.000 stig í fyrsta sinn. Hún hækkaði um 76 stig á fyrsta klukkutíma viðskipta í Bandaríkjunum í morgun, eða 0,43%, og fer hækkandi. Þegar þetta er skrifað stendur vísitalan í 18.036,53 stigum.

Standard&Poors 500 vísitalan hefur einnig hækkað. Hún stendur í 2.084,83 stigum og hefur aldrei verið hærri.

Góðar fréttir af hagvexti á þriðja ársfjórðungi hafa haft þessi áhrif að mati greinenda. Greint var frá því fyrr í dag að hagvöxtur hefði mælst 5% á þriðja ársfjórðungi. "Efnahagsbatinn virðist vera á réttri leið og hægt og rólega bætist og eykst hagvöxturinn. Það er gott fyrir verðbréf," sagði David Kotok hjá Cumberland Advisors við CNN Money. Að auki telur hann lága stýrivexti og verðbólgu hafa haft áhrif á þessar hækkanir.