Robert Downey Jr – sem glæðir ofurhetjuna Járnmanninn lífi í samnefndum kvikmyndum, ásamt ýmsum öðrum myndum sem gerast í Marvel teiknimyndasöguheiminum – er sagður hafa fengið „í það minnsta“ 75 milljónir Bandaríkjadala, um 9,2 milljarða króna, fyrir stórmyndina Avengers: Infinity War sem kom út í fyrra. The Guardian greinir frá .

Downey er sagður hafa gert sambærilegan samning fyrir leik sinn í nýjustu Avengers myndinni, sem sló heimsmet í opnunarhelgartekjum nú um síðustu helgi, en gamla metið átti einmitt Avengers: Infinity War .

Samningurinn felur í sér að leikarinn ástsæli fær hlutdeild í hagnaði myndarinnar – að því er talið um 2,5% – en að auki er hann talinn fá grunnlaun upp á um 10 milljónir dala.