Bandaríski hagfræðiprófessorinn Nouriel Roubini, sem stundum er kallaður Dr. Doom í kjölfar þess að hann reyndist sannspár um þá efnahagslægð sem hrjáð hefur heiminn undanfarin misseri, boðar nýtt fárviðri í veðrakerfi efnahagsmála heimsins. Í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna segir hann all nokkra þætti geta valdið því sem hann kallar fullkominn storm árið 2013.

Slæm staða ríkisfjármála í Bandaríkjunum, endurskipulagning skulda í Myntbandalagi Evrópu og stöðun í Japan auk þess sem tekið er að hægja á kínverska vaxtarundrinu. Allt eru þetta þættir sem stefna saman og þegar þeir ná saman, sem í síðasta lagi verður árið 2013 að mati Roubini, er fjandinn laus að hans sögn.

Roubini segir veikleikana þegar vera farna að koma í ljós. „Allir eru að ýta skuldavandanum, bæði hins opinbera og einkageirans, á undan sér og snjóboltinn verður þyngri og þyngri og stærri,“ segir hann. Frá byrjun maí hefur hlutabréfaverð á mörkuðum heimsins lækkað um 3,3 billjónir dala og segir Dr. Doom að um mitt næsta ár muni markaðurinn fara að sýna verulegar áhyggjur af samleitni áðurnefndra vandamála.