Rapp- og hiphopp-mógúllinn Dr. Dre er launahæsti tónlistarmaður heims á þessu ári, en tekjur hans námu alls 110 milljónum dala, andvirði um 13,8 milljarða íslenskra króna. Tekjurnar koma einkum í gegnum heyrnartólaframleiðandann Beats, en í fyrra keypti snjallsímaframleiðandinn 51% hlut í fyrirtæki doktorsins fyrir 300 milljónir dala. Hann keypti svo helminginn af þessu hlutafé til baka.

Nokkrir tónlistarmenn á lista Forbes yfir 25 tekjuhæstu tónlistarmennina fá, eins og Dr. Dre og Jay-Z og Diddy, sínar tekjur af viðskiptaveldum sínum er meirihluti listamannanna aðallega að græða á tónleikahaldi.

Í öðru sæti á eftir Dr. Dre er Pink Floyd kempan Roger Waters sem var með 88 milljónir dala í tekjur í ár, Elton John er í þriðja sæti með 80 milljónir, og írska ofurgrúppan U2 þénaði 78 milljónir dala.

Poppgoðin í Take That höfðu 69 milljónir dala upp úr krafsinu þegar sveitin kom saman aftur og flutti nokkra tónleika. Britney Spears er aftur komin á flug eftir nokkur erfið ár, en hún halaði inn 58 milljónir dala í ár, einkum í gegnum samning við snyrtivöruframleiðandann Elizabeth Arden.

Yngsti tónlistarmaðurinn á listanum er Justin Bieber sem var með 55 milljónir dala í tekjur á árinu, aðallega í gegnum tónlistarsölu, en hann hefur einnig verið að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum eins og Tinychat og Spotify.