Dr. Friðrika Harðardóttir tók nýverið við starfi forstöðumanns nýrrar skrifstofu alþjóðasamskipta við Háskóla Íslands (HÍ).

Fram kemur í tilkynningu að Friðrika lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1987, hlaut meistaragráðu í ónæmisfræði frá Yale-háskóla árið 1992 og lauk doktorsprófi frá sama skóla árið 1995. Hún starfaði við rannsóknir í ónæmisfræði til ársins 2007 en var þá ráðin sem sérfræðingur á skrifstofu vísinda - og háskólamála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar starfaði hún allt þar til hún réð sig til Háskóla Íslands nú í sumar.

Breytingar hjá HÍ

Skrifstofa alþjóðasamskipta varð til í kjölfar breytinga á skipulagi stoðþjónustu háskólans. Breytingarnar tóku gildi í byrjun árs og komu til fullrar framkvæmdar þann 1. júlí síðastliðinn. Þá voru verkefni sem hafa verið á hendi háskólans samkvæmt samningi við Landskrifstofu menntaáætlana í mennta- og menningarmálaráðuneytinu færð til Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís).

Skrifstofa alþjóðasamskipta starfar með öðrum áherslum en fyrirrennari hennar, Alþjóðaskrifstofa Háskóla Íslands, og er ofar í skipuriti háskólans, að því er segir í tilkynningunni. Með breytingunum á m.a. að efla og styrkja þjónustu við alla erlenda stúdenta háskólans í stað þess að skiptinemar njóti forgangs og efla og styrkja þjónustu við starfsmenn háskólans og erlenda samstarfsaðila í samvinnu við aðrar einingar skólans.