Björgvin G. Sigurðsson veitti í dag Gunnari Hjálmarssyni Íslensku neytendaverðlaunin í fyrsta skipti.

Gunnar er betur þekktur undir heitinu Dr. Gunni, en í rökstuðningi fyrir veitingunni er hann sagður hafa staðið fyrir einstöku einstaklingsframtaki í neytendamálum: „Allt of lengi hefur það talist allt að því púkalegt að tjá sig opinberlega um hátt verðlag eða slæma þjónustu. Fram til þessa hefur hinn dæmigerði neytandi verið líkastur Silla í Spaugstofunni: Nískur, sjálfselskur, ósanngjarn og ógeðfelldur."

„Hinn dæmigerði neytandi dagsins í dag, eða öllu heldur, fyrirmyndarneytandinn í dag, er af allt öðru tagi. Hann kemur fram hreinn og beinn, bendir á blákaldar staðreyndir um okur þegar við á og hrósar þeim sem veita góða þjónustu á góðu verði."