Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, keypti nýverið fasteign á Ísafirði ásamt fjórum öðrum. Íbúðin, sem er efri hæð í miðbæ Ísafjarðar, hefur hlotið nafnið Sólskinshöllin, líkt og nýstofnað sameignarfélag um íbúðina.

„Konan mín er brottfluttur Ísfirðingur eins og allir hinir, nema ég,“ segir Dr. Gunni aðspurður um kaupin. „Okkur langaði til þess að eiga fastan verustað á Ísafirði og þetta kom upp í hendurnar á okkur.“ Dr. Gunni segir að húsið muni nýtast vel á sumrin og einnig yfir páskahátíðina, þegar rokkhátíðin Aldrei fór ég suður fer fram.

Ljótasta húsið á Ísafirði

„Þetta er efri hæð í ljótasta húsinu á Ísafirði,“ segir tónlistardoktorinn og hlær. „Þetta er gríðarlega óásjálegt hús, en miklu betur á sig komið að innan en utan. Ætlunin er að eiga þetta næstu árin og gera upp smátt og smátt.“

Hann tekur þó fram að húsið heldur vatni og vindi í dag. Nágrannarnir eru heldur ekki af verri endanum, en íbúð á neðri hæð er í eigu Rúnars Þórs Péturssonar tónlistarmanns. „Ég er að vona að þeir verði mikið á staðnum, Rúnar Þór, Megas og Gylfi.“

Dr. Gunni segir að hann verði ekki allt sumarið á Ísafirði, þrátt fyrir hagstæð kaupin. Húsið er um 150 fermetrar og kostaði um 4 milljónir. Meðal þess sem dregur Dr. Gunna frá Ísafirði er hátíðin Eistnaflug í júli, þar sem doktorinn spilar með Svarthvítum draumi.