Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, stofnandi Marorku hætti störfum sem forstjóri fyrirtækisins um áramótin. Hann hefur tekið við af Þórði Magnússyni, sem stjórnarformaður Marorku. Fram kemur í tilkynningu frá Marorku að dr. Bjarki A. Brynjarsson hefur tekið við starfi forstjóra þar til nýr forstjóri verður ráðinn.

Jón Ágúst stofnaði Marorku árið 2002 en grunnur fyrirtækisins liggur í rannsóknum hans á því hvernig hægt væri að beita stærðfræðilegri aðferðafræði við samþættingu orkukerfa.

Viðskiptablaðið valdi dr. Jón Ágúst sem frumkvöðul síðasta árs. Þórður hefur verið stjórnarformaður Marorku frá árinu 2004. Hann mun sitja áfram í stjórn fyrirtækisins.

Í viðtali við dr. Jón Ágúst í áramótablaði Viðskiptablaðsins sem kom út á milli jóla og nýárs segir hann:

„Það er kominn tími til að fara upp úr skurðinum og líta yfir farinn veg. Menn brenna sig út á þessu en ég hugsa að ég verði nú alltaf mjög nálægt félaginu. Það er kannski að koma tími til að hvíla sig á daglegum rekstri og komast frá honum aðeins. Það eru mikil átök framundan og mikil uppbygging og ferðalög. Það er ágætt að vera einhvers staðar í yngri kantinum í því.“