Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir, lektor, verður nýr sviðsstjóri félagsvísindasviðs Háskólans á Bifröst.

Fram kemur í tilkynningu að hún hefur starfað sem lektor á félagsvísindasviði og viðskiptasviði frá því í desember 2012 og þar áður sem aðjúnkt og sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst frá 2010. Sigrún lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Háskólanum í Exeter í Englandi (2012), MA-prófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst (2009), kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri  (2003) og BA-prófi í bókmenntum frá Háskóla Íslands (2001). Sigrún hefur stundað rannsóknir á sviði menningarfélagsfræði og menningarstjórnunar; hún hefur birt fræðigreinar um rannsóknir sínar í alþjóðlegum tímaritum og tekið þátt í fjölmörgum ráðstefnum bæði heima og erlendis.

Dr. Páll Rafnar Þorsteinsson, fráfarandi sviðsstjóri, heldur áfram störfum við Háskólann á Bifröst við kennslu og rannsóknir.