Þátttaka í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans í gær var minni en í hinum fjórum sem haldin hafa verið á þessu ári. Á þetta bendir greiningardeild Íslandsbanka í morgunkornum sínum í dag. Samþykkt útboðsgengi var þó lægra en síðast og í raun það lægsta sem samþykkt hefur verið í gjaldeyrisútboðum á árinu.

Greiningardeildin bendir á að lækkandi verð evru í útboðunum geti verið vísbending um að eigendur aflandskróna séu ef til vill ekki eins óþolinmóðir að losa krónustöður sínar og talið hefur verið. Krónuútboðin hafa nú losað um rúma 25 milljarða króna af aflandskrónum og sé tekið mið af öðrum aðgerðum bankans nær upphæðin tæpum 72 milljörðum.

Greiningardeildin telur þó ástæðu til að hafa áhyggjur. „Að okkar mati gefur þessi niðurstaða úr krónukaupaútboðinu í gær sem og þeim sem haldin hafa verið á árinu ekki ástæðu til bjartsýni um að núverandi áætlun um afléttingu hafta geti skilað umtalsverðri lækkun á stöðu aflandskróna á næstunni,“ segir í morgunkornunum.