Allt lítur út fyrir að iPhone 4S, nýjasta útgáfa iPhone símans frá Apple sem kynnt var í gær, hafi valdið nokkrum vonbrigðum ef marka má bæði viðbrögð fjárfesta og umræðunnar almennt hjá marktækum aðilum sem þekkja til tæknimála.

Nokkur eftirvænting var eftir símanum, sem flestir héldu að yrði iPhone 5, en vitað var að Apple myndi kynna nýja útgáfu af símanum í byrjun október.

Á vef Reuters fréttastofunnar er fjallað um viðbrögðin við nýja símanum. Þar er greint frá því að Tim Cook, forstjóri Apple, hafi ekki náð að byggja upp sömu eftirvæntingu og spenning fyrir vörunni eins og forveri hans í starfi, Steve Jobs, gerði þegar hann kynnti nýjar vörur frá Apple.

iPhone 4S er að flestu leyti sambærilegur iPhone 4 símanum en „aðdáendur“ Apple höfðu vonast eftir þynnri og léttari síma með stærri skjá. Strax eftir kynninguna féll gengi hlutabréfa í Apple um 5% en þau náðu þó að rétta úr kútnum fyrir lok markaða og höfðu þá lækkað um 0,6% frá opnun í gærmorgun.

Ef marka má viðmælendur Reuters virðist helsta áhyggjuefni fjárfesta vera það að helstu samkeppnisaðilar Apple eigi nú ekki jafn langt í land og áður með að koma með sambærilegar vörur og iPhone síminn er. Þannig telja þeir hættu á að Google, í samstarfi við Android Software, og Samsung kynni innan skamms snjallsíma sem séu vel samkeppnishæfir við iPhone símana sem hingað til hafa bæði notið mun meira vinsælda og verið taldir mun þróaðri en símar samkeppnisaðilanna.

Athygli vekur að lítil eftirvænting virðist vera eftir snjallsímum frá Nokia sem virðist hafa dregist nokkuð aftur úr á þessum markaði þrátt fyrir að hafa komið fram með nokkrar gerðir snjallsíma á undanförnum árum.

Þá vakti nýr raddskipunarmöguleik töluverða athygli og er sá möguleiki talinn auðvelda notkun símans til muna. Þannig verður hægt að senda skilaboð með raddskipun, athuga gengi hlutabréfa og opna önnur forrit svo dæmi séu tekin. Android símarnir bjóða upp á svipaða tækni en almennt er talið að Apple hafi þróað þá tækni lengra.

Samningar Apple við bandarísku símafyrirtækin AT&T, Veriozon og Sprint skapa símanum þó öfluga samkeppnisstöðu og telja viðmælendur Reuters að síminn eigi eftir að rjúka út úr verslunum nú þegar jólainnkaupatímabilið gengur í hönd. Þau ummæli urðu til þess að rétt af lækkandi gengi hlutabréfa í

Of mikil eftirvænting?

Samkvæmt fréttaskýringu Reuters af viðbrögðum við nýja símanum, sem og annarra fjölmiðla beggja megin Atlantshafsins, virðist vera að eftirvænting eftir nýja símanum hafi einfaldlega verið of mikil. Þannig hafi Apple „toppað“ sig aftur og aftur síðustu ár með nýjum vörum, s.s. nýjum útgáfum af iPhone og svo auðvitað iPad spjaldtölvunni sem notið hefur gríðarlegra vinsælda. iPad 2 vakti enn meiri lukku og jók verulega á eftirvæntingar neytenda eftir nýrri útgáfu af iPhone símanum.

Þannig virðist Apple líða fyrir fyrri velgengni en allt frá árin 2007, þegar iPhone var fyrst kynntur til sögunnar, hefur Apple kynnt hverja vörun á fætur annarri sem slegið hefur í gegn eins og fyrr segir.

iPhone 4S mun kosta 199 Bandaríkjadali en síminn fer í forsölu á föstudaginn.