Gert er ráð fyrir því að fallið verði frá áformum um 470 milljóna króna hækkun á framlagi í kvikmyndasjóð sem veitt var í fjárlögum á þessu ári og var eitt af verkefnum í svonefndri fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013 til 2015. Í nýjum fjárlögum fyrir næsta ár  segir að ekki sé útlit fyrir að forsendur fyrir fjármögnun framlagsins geti staðist.

Fram kemur í fjárlögunum að framlag til Kvikmyndasjóðs nam 515 milljónum króna í fyrra og 570 milljónum króna í ár. Gert er ráð fyrir því að 640 milljónir verði lagðar í sjóðinn á næsta ári og 750 milljónir árið 2015.

Á móti mun heildarframlag til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands nema 735,3 milljónum króna á næsta ári, að því er fram kemur í fjárlögunum. Þetta er 35,9% lækkun frá fjárlögum á þessu ári en 31,8% meira en árið 2012.

Fram kemur í fjárlögunum að framleiðslustyrkir hækka úr 530 milljónum króna í 600 milljónir eða um 70 milljónir króna á næsta ári.