Fyrr í sumar hófu hin ýmsu félög að sniðganga Facebook með því að hætta að auglýsa á síðu tæknirisans. Ástæðan var úrræðaleysi samfélagsmiðilsins við að sporna gegn hatursorðræðu. Nú hafa stór félög á borð við North Face, sem var eitt fyrsta stóra félagið til að sniðganga Facebook, Heineken, Puma og fleiri ákveðið að draga í land.

Ekki er talið að Facebook hafi orðið fyrir verulegum fjárhagslegum skaða sökum úrræðisins en auglýsingatekjur félagsins eru samt sem áður ein helsta tekjulind þess. Nú þegar hafa einhver félög ákveðið að framlengja sniðgöngu sína út ágústmánuð. Umfjöllun á vef WSJ.

Facebook segist hafa varið milljörðum dollara til að tryggja öryggi og áreiðanleika á vefnum sínum. Félagið birti ársfjórðungsuppgjör á fimmtudag og var félagið með um níu milljón auglýsendur á vefnum sínum í lok júní. Hlutabréf félagsins hækkuðu um 8% í kjölfar uppgjörsins.

Talið er að auglýsingatekjur félagsins hafi hækkað um 10% milli ára á þeim þremur vikum í júlí sem herferðin stóð yfir.