Hópur fjárfesta sem gerði kauptilboð í Perluna hefur fallið frá tilboði sínu. Garðar K. Vilhjálmsson lögmaður segir í yfirlýsingu fyrir hönd hópsins að borgaryfirvöld séu að eyðileggja söluferli Perlunnar. RÚV greinir frá í dag.

Að sögn Garðars var aðeins einn fyrirvari, hagkvæmnisathugun, á kauptilboði hópsins. Slík athugun hafi leitt í ljós að einsýnt sé að yfirvöld í Reykjavík ætli ekki að leyfa neinar framkvæmdir eða byggingar á lóð Perlunnar.

Framkvæmdirnar hafi verið forsenda þess að hægt væri að greiða það kaupverð sem boðið hafi verið. Garðar segir að allar hugmyndir, formlegar sem óformlegar, sem hann hafi lagt fram fyrir hönd hópsins hafi verið slegnar út af borðinu hjá skipulagsyfirvöldum.

Fyrstu hugmyndir hópsins voru að byggja baðaðstöðu og hótel við Perluna. Garðar segir að eftir að ljóst hafi verið að ekki fengist leyfi skipulagsyfirvalda fyrir hóteli á lóðinni hafi verið settar fram hugmyndir um náttúruminjasafn. Mælt hafi verið gegn þeim og vísað í hugmyndasamkeppni sem halda ætti um skipulag í Öskjuhlíðinni.