Golfklúbburinn Klettur, sem staðsettur er til húsa í Brautarholti, hefur stefnt Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Deila málsaðila lýtur að sláttuvél sem KR fékk frá klúbbnum í vor. Dómkrafa málsins er vel á aðra milljón króna.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins fékk KR sláttuvél frá golfklúbbnum til reynslu og þá með möguleg kaup í huga. Eftir prófanir á henni hafi komið í ljós að hún hafi ekki alveg hentað í verkið og að önnur betri vél, annars staðar frá, stæði félaginu til boða. Hins vegar hafi gleymst að skila vél Klettsmanna og hún staðið að mestu óhreyfð í allt sumar.

Í haust hafi KR síðan borist skeyti um það hvort félagið ætlaði ekki að kaupa vélina en því hafi verið neitað. Þá hafi borist reikningur frá Kletti fyrir leigu á vélinni yfir sumartímann. Samkvæmt honum var Knattspyrnufélagið krafið um 20 þúsund daglegar krónur fyrir níutíu daga tímabil.

Uppfært 12.53 Í athugasemd sem blaðinu barst er sett úr á að vélin hafi „staðið að mestu óhreyfð“. Tímamælir hennar sýni að hún hafi verið í notkun allt sumarið, samtals um 72 klukkustundir, og því notuð endurgjaldslaust af KR undir því yfirskini að verið væri að tryggja fjármögnun til að geta gengið frá kaupunum. Ekki hafi heldur verið greitt fyrir afnot af vélinni.

Málið er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með tilheyrandi málsmeðferð. Í dag fæst botn í annað mál sem KR á aðild að en það varðar skyndileg endalok Íslandsmótsins í knattspyrnu sökum dreifingar Covid pestarinnar. Von er á niðurstöðu dómstóls KSÍ í dag en ljóst er að þar eru umtalsvert meiri hagsmunir undir heldur en sláttuvélarmálinu. Málsmeðferð í því máli er þó öllu umfangsminni og skjótari.