Greining Glitnis segir í Morgunkorni sínu að þrátt fyrir mikla hækkun launa á undanförnum misserum hafa laun ekki haldið í við verðlag á undanförnum mánuðum og hefur dregið verulega úr kaupmáttaraukningu launa á ársgrundvelli.

Kaupmáttur launa í mars miðað við vísitölu neysluverðs minnkar um 0,2% frá febrúar og um 0,6% frá sama tíma síðasta árs. Hækkunin í mars endurspeglar að mestu leyti áhrif nýgerðra kjarasamninga.

Greining Glitnis segir að þessi dreifing samningsbundinnar launahækkunar skýrir að einhverju leyti tímabundna lækkun á tólf mánaða breytingu vísitölunnar frá desember.

„Þegar áhrif kjarasamningana verða komin að fullu fram í apríl má búast við að tólf mánaða hækkun launavísitölunnar nálgist það sem hún var í lok síðasta árs, en meðalhækkun 4. ársfjórðungs síðasta árs nam 8,3%. Við gerum þó ráð fyrir minni launahækkun á næstu árum, samhliða hægari gangi í hagkerfinu þar sem draga mun úr spennu á vinnumarkaði,“ segir í Morgunkorni Glitnis.