Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að breyta reglugerð sinni um verðlagningu og greiðsluþátttöku lyfja í kjölfar gagnrýnis. Hámarksverð á Íslandi mun miðast við meðalverð en ekki lægsta verð í EES-löndum eins og áður var gert ráð fyrir, að því er segir í frétt Morgunblaðsins um málið.

Í síðustu viku fjallaði Viðskiptablaðið um að titringur væri innan lyfjageirans í kjölfar þess að drög að reglugerð um verðlagningu lyfja var birt. Ef engu yrði breytt hefði mátt búast við afskráningu lyfja í stórum stíl. Viðbúið var að velta myndi dragast saman um á annan milljarð króna ef ekkert hefði verið gert.

Jakob Falur Garðarson, framkvæmdastjóri Frumtaka, segir í viðtali við Morgunblaðið að um sé að ræða mikinn létti. „Eins og segir í niðurstöðunni hefur ráðuneytinu ekki unnist tími til annars en að bregðast við þessum stærstu ásteytingarsteinum, en síðan verður reglugerðin endurskoðuð í samráði við hagsmunaaðila á fyrsta ársfjórðungi 2021.

Það er það besta sem gat gerst, þetta er besta niðurstaða, sem búast mátti við, og gott að ráðuneytið sá að sér, svo það er ekki bara valtað yfir lyfjageirann í þessu mikilvæga máli,“ segir Jakob.