Steinn Friðriksson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, segir að sögulega séð hafi efnahagsumhverfi Íslendinga verið sveiflukennt og því sé ef til vill aukin þörf á að eiginfjárstaða þeirra sé sterkari en í öðrum löndum þar sem efnahagslegur stöðugleiki er meiri. Þetta kemur fram í grein hans í ritröðinni Efnahagsmál sem Seðlabanki Íslands gefur út, en hún ber heitið „Fjármagnsskipan og fjárhagsleg staða 500 veltumestu fyrirtækja landsins“.

Í greininni er fjallað um fjárhagslega stöðu og fjármagnsskipan stærstu fyrirtækja á Íslandi frá árinu 1997 til ársins 2012. Lögð er sérstök áhersla á skuldsetningu þeirra og í því samhengi farið lauslega yfir þætti sem hafa áhrif á fjármagnsskipan fyrirtækja og mögulega hvata til skuldsetningar. Staða fyrirtækjanna er svo metin út frá þekktum kennitölum fyrirtækja og öðrum mælikvörðum á fjárhagslega stöðu.

Greining Steins á 500 stærstu fyrirtækjunum hér á landi leiddi í ljós að stór hluti þeirra var of skuldsettur í aðdraganda fjármálaáfallsins 2008 og var fjárhagslegt svigrúm þeirra til aukinnar skuldsetningar því takmarkað. Staða fyrirtækjanna hafi þó batnað verulega fyrstu fjögur árin eftir áfallið og var hún orðin sögulega nokkuð góð árið 2012, enda mörg fyrirtækjanna endurskipulögð og verst stæðu fyrirtækjunum slitið.

Steinn segir í greininni að í ljósi þess að þörf til sterkrar eiginfjárstöðu geti verið sterkari á Íslandi en annars staðar gæti verið hagkvæmt að draga úr innbyggðum hvötum til skuldsetningar. Það hafi verið gert víða annars staðar, svo sem með reglum um frádráttarbærni vaxtagjalda við útreikning á tekjuskattsstofni fyrirtækja eða með því að stuðla að jafnri meðferð vaxtagjalda og arðgreiðslna við útreikning skatta. Þá gæti verið æskilegt að efla með einu eða öðru móti hlutafjármarkað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Grein Steins má lesa í heild sinni hér .