Boeing hefur í hyggju að draga framleiðslu á 737 þotum sínum saman um tæpan fimmtung á meðan unnið er að endurbótum á Max útgáfu vélanna. Tvö mannskæð flugslys 737 Max hafa átt sér stað á skömmum tíma.

Sagt er frá þessu á vef Bloomberg . Hingað til hefur fyrirtækið smíðað 52 þotur af gerðinni 737 á mánuði en þeim verður fækkað um tíu. Þetta er í fyrsta sinn frá árásunum á Tvíburaturnana 11. september 2001 sem Boeing dregur saman seglin við framleiðslu á 737.

Aðgerðunum, sem voru kynntar af forstjóranum Dennis Muilenberg í gær, er ætlað að spara fjármuni tímabundið. Sótt hefur verið hart að Boeing úr öllum áttum eftir áðurnefnd slys og vinnur félagið nú hörðum höndum að tryggja öryggi 737 Max vélanna og endurheimta traust eftir álitshnekk sem af þeim hlaust.

Haft er eftir forstjóranum á vef Reuters að vinnan við endurbætur á 737 Max gangi vel. Uppfærsla á hugbúnaði vélanna sé langt á veg komin og tryggi að slys sem þessi gerist ekki aftur.