Vogunarsjóðum gekk afar illa að ávaxta fé fjárfesta sinna árið 2016. Raunar svo illa að vogunarsjóðsvísitala Credit Suisse lækkaði um 4,3% á sama tíma og S&P 500 vísitalan hækkaði um 9,5%.

Þessi slappa ávöxtun olli því að fjárfestar flúðu marga þessara sjóða og nú virðast vogunarsjóðsstjórarnir ætla sér að koma í veg fyrir annað eins ár.

Samkvæmt samantekt sem unnin var af Bloomberg má sjá að skortstöðum hefur fækkað ört og því virðast vogunarsjóðirnir vera að veðja á áframhaldandi uppgang á mörkuðum.

Þessi stefnubreyting gæti haft talsverð áhrif á verðmyndun á mörkuðum. Svokallaðir long-short vogunarsjóðir, sem taka bæði veða með og á móti markaðinum, eru alls með um 686,7 milljarða dala í stýringu.

Gögn frá eVestment sýna svo að þeir sitji á fé, sem þeir eigi eftir að koma í umferð. Þessu fé verður þá líklegast varið á komandi misserum.