Gengi hlutabréfa hefur lækkað nokkuð á evrópskum fjármálamörkuðum í dag eftir að bankastjórn evrópska seðlabankans tilkynnti að hann ætli að meta styrk og gæði eignasafna banka innan evrusvæðisins. Breska dagblaðið Financial Times hefur á vef sínum eftir seðlabankastjóranum Mario Draghi, að matið ætti að styrkja bankana. Undir kastljósi evrópska seðlabankans eru í kringum 130 bankar. Þetta verður einhver umfangsmesta könnun seðlabankans á eignasöfnum bankanna sem ráðist hefur verið í.

Gengi hlutabréfa banka gaf mest eftir í morgun á Spáni, í Frakklandi og Þýskalandi og féll í kringum 2%.

Í umfjöllun Financial Times um málið segir að með athuguninni verði einna helst horft til þess hvort og þá hvaða bankar gætu þurft að bæta eiginfjárstöðu sína. Fyrirmyndin er álagsprófun bandarískra fjármálayfirvalda árið 2009.