Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu töluvert annan daginn í röð þrátt fyrir áframhaldandi pólitískan vandræðagang á evrusvæðinu. Sérfræðingar þakka einkum óvæntri stýrivaxtalækkun evrópska seðlabankans þessa hækkun hlutabréfa. Var það ekki aðeins vaxtalækkunin sjálf sem ýtti undir hlutabréfakaup, heldur lásu margir í hækkunina merki um að nýr seðlabankastjóri, Mario Draghi, gæti verið viljugri til að grípa inn í markaði með skuldabréfakaupum eða öðrum aðgerðum sem ætlaðar eru til að örva markaðina.

Draghi tókst reyndar að hrista aðeins upp í fjárfestum þegar hann sagði Evrópu líta út fyrir að vera á leiðinni í milda niðursveiflu, en bjartsýni varð þó svartsýninni yfirsterkari á mörkuðum í dag.

Dow Jones vísitalan hækkaði um 1,76%, Nasdaq um 2,20% og S&P 500 um 1,88%.