Mario Draghi bankastjóri Seðlabanka Evrópu sagði í dag að bankinn myndi hugsanlega eiga viðskipti á markaði til að lækka hátt álag þeirra evruríkja sem eru verst stödd fjárhagslega.  Þetta kemur fram á vef WSJ.

Draghi sagði ekkert um nákvæmar fyrirætlanir seðlabankans en skilja má orð hans sem vísbendingu um að kaupa ríkisskuldabréf þessara landa á eftirmarkaði. Því hafa Þjóðverjar verið staðfastlega á móti.

Seðlabankastjórinn sagði jafnframt að bankinn væri að vinna að plani til að verja evruna. Það yrði gert hvað sem það kostar. Stýrivextir á evrusvæðinu eru áfram óbreyttir, eða 0,75%.

Viðbrögð fjárfesta við yfirlýsingum Draghi voru á einn veg, hlutabréf voru seld. Mest hafa hlutabréfavísitölur á Spáni og Ítalíu lækkað, um 2,5%. Bandarísk hlutabréf vega hins vegar salt í kringum núllið.

Uppfært 17.13.

Mikið verðfall varð á evrópskum hlutabréfum í dag. IBEX á Spáni lækkaði mest eða um 5,16%.

  • FTSE 100 London -0.88%
  • DAX Frankfurt -2.20%
  • CAC 40 París -2.68%
  • FTSE MIB Mílanó -4.64%
  • IBEX 35 Madríd -5.16%