Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, segir að taki aðildarríki evrusvæðisins ekki efnahagsumbætur alvarlega gæti það komið niður á hagvexti á svæðinu. Segir hann að þótt aðgerðir seðlabankans hafi gert fjármögnun auðveldari og ódýrari þá ætti að ekki að stöðva umbótaferlið.

„Það á að vera alveg ljóst að sú röksemdafærsla, að slaki í peningastefnu sé afsökun fyrir ríkisstjórnir og þjóðþing að fresta umbótum, er röng,“ hefur Reuters eftir Draghi.

Hann segir að enn séu erfiðir tímar framundan í Evrópu þrátt fyrir áhrif peningaprentunar seðlabankans. „Efnahagshorfur evrusvæðisins eru nú bjartari en þær hafa verið í sjö löng ár,“ sagði hann, en benti jafnframt á að í of mörgum löndum væru opinberar skuldir of háar og atvinnuleysi of mikið.