Evrópski seðlabankinn tilkynnti í dag aukinn slaka í peningamálastefnu á næstunni. Horfur evrusvæðisins hafa farið hratt versnandi nýverið, en bankinn lækkaði nýverið hagvaxtarspá sína fyrir árið úr 1,7% í 1,1%.

Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, segir tímabil „viðvarandi veikleika og gegnumgangandi óvissu“ nú ríða yfir evrusvæðið. Tilkynnt var að stýrivextir bankans – sem í dag eru 0% – yrðu ekki hækkaðir á þessu ári, og markaðsaðgerðir sem fela í sér ódýr lán til banka yrðu endurvaknar.

Aðgerðirnar – svokallaðar sértækar langtíma endurfjármögnunaraðgerðir (e. Targeted longer-term refinancing operations) – felast í því að bankinn býður upp langtímalán á lágum vöxtum til að stemma stigu við útlánasamdrætti, en til þeirra hefur bankinn ekki gripið í tæp þrjú ár.

Ákvörðunin markar viðsnúning frá þeirri stefnu bankans að stefna að aðhaldssamari peningastefnu eftir mikinn slaka allt frá fjármálahruninu fyrir áratug, en bankinn hafði áður sagt að stýrivextir gætu farið að hækka næsta haust.

Svo virðist sem tilkynningin hafi lítið gert til að sefa áhyggjur markaðsaðila af ástandinu, en hlutabréf stærstu banka evrusvæðisins féllu um 4-5% í kjölfarið.

Skipunartímabil Draghi rennur út í október á þessu ári, og því þykir skipta sköpum fyrir trúverðugleika peningastefnunnar að jafnvel helstu talsmenn aðhalds studdu ákvörðun Draghi.

Umfjöllun Financial Times.

Umfjöllun Reuters.