Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, sagðist vilja hvetja aðildarríki ESB til að eyða meiru í eftirspurnarhvetjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir langvarandi atvinnuleysi í ræðu sem hann hélt á árlegri ráðstefnu seðlabankastjóra í Jackson Hole í Bandaríkjunum í gær.

„Áhættan af því að „gera of lítið“ - þ.e. að tímabundið atvinnuleysi verði langvarandi - er mun meiri en af því að „gera of mikið“ - þ.e. of mikill þrýstingur á laun og verðlag,“ var meðal þess sem Draghi sagði í ræðu sinni í gær en hann vill að áherslan verði lögð á að vinna bug á atvinnuleysi í Evrópu frá öllum mögulegum vígstöðum.

Undir lok ræðunnar ítrekaði Draghi að aðgerðir til að vinna bug á atvinnuleysi þyrftu að vera marghliða. Ekki væri einungis hægt að draga úr atvinnuleysi út frá eftirspurnarhliðinni. „Án hærri heildareftirspurnar, hættum við á hærra langvarandi atvinnuleysi og ríki sem innleiða aðeins aðhaldsaðgerðir gætu endað á því að staðna. En án aðhaldsaðgerða myndu eftirspurnarhvetjandi aðgerðir fljótlega verða gagnlitlar. Leiðin að hærra atvinnustigi er því með öðrum orðum aðgerðir sem blanda saman peningamálastefnu, aðgerðum ríkissins og aðhaldsaðgerðum bæði frá Evrópusambandinu og innan stakra aðildarríkja. Þetta mun veita hverju og einu aðildarríki sambandsins færi á að öðlast hærra atvinnustig,“ sagði Draghi.