Þjóðhagsspá Íslandsbanka kom út fyrr í vikunni. Þar spáir bankinn talsvert minni hagvexti í ár samanborið við nýjustu spá Peningamála Seðlabankans sem út 24. maí í tilefni af vaxtaákvörðun bankans.

Þannig spáir Greining Íslandsbanka 3,1% hagvexti á árinu 2023, en Seðlabankinn 4,8% hagvexti. Munurinn á hagvaxtarspánum skýrist af minni eftirspurnarvexti, en Íslandsbanki spáir hægari vexti í einkaneyslu og fjárfestingu samanborið við Seðlabankann.

Útflutningsvöxtur muni drífa hagvöxtinn á árinu, ólíkt því sem átti sér stað á árunum 2021-2022 þegar innlend eftirspurn í formi mikillar einkaneyslu landsmanna og atvinnuvegafjárfestingar keyrði hagvöxtinn áfram.

Hægari vöxtur einkaneyslu

Í spánni er gert ráð fyrir að hægt og bítandi muni draga úr spennu í hagkerfinu eftir hraðan vöxt að undanförnu. Hagvöxtur verði 2,4% árið 2024 og skýrist hægari vöxtur að stærstum hluta af samdrætti í fjárfestingu ásamt hægari vexti einkaneyslu og útflutnings. Í spánni er jafnframt gert ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 2,8% á árinu 2025 þar sem innlend eftirspurn verði aftur í aðalhlutverki á sama tíma og dregur úr útflutningsvexti.

Mikill vöxtur var í fjárfestingu á síðasta ári, eða sem nemur 7%. Vöxturinn var alfarið knúinn af 15% raunaukningu í fjárfestingu atvinnuvega. Vegna vaxtahækkana og væntinga um óhagfelldara rekstrarumhverfi fyrirtækja eru horfur á hægari vexti fjárfestinga og að hann muni nema 3,6% á þessu ári. Þá verði samdráttur í fjárfestingum á næsta ári upp á 1,3%.

Nánar er fjallað um þjóðhagsspá Íslandsbanka í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun, föstudaginn 2. júní. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.