Veiðar hafa gengið vel að undanförnu á ísfisktogaranum Drangey SK sem Fisk Seafood gerir út frá Sauðárkróki. Skipið, sem kom nýtt til Íslands, fyrir rúmum tveimur árum, er reyndar í hópi aflahæstu fiskiskipa á yfirstandandi fiskveiðiári. Heildaraflinn það sem af er var kominn í rúmlega 5.100 tonn 1. maí síðastliðinn og aflaverðmætin voru komin vel á annan milljarð króna.

Àgúst Óðinn Ómarsson og Bárður Eyþórsson eru skipstjórar á Drangey. Bárður var áður á Málmey SK ásamt Ágústi.

„Það hefur verið mjög góð veiði. Fiskurinn á útleið frá fjörunum og það hefur verið mikill þorskur á Eldeyjarbanka og við Snæfellsnesið, á Flugbrautinni svokölluðu sem áður var kallaður BÚR-bankinn vegna þess að þangað sóttu mikið skip Bæjarútgerðar Reykjavikur. Þar vorum við í síðasta túr en ég er nú í fríi núna,“ segir Ágúst. Eftir túrinn var landað 116 tonnum á Grundarfirði og var uppistaðan í aflanum þorskur.

Dasaður eftir mikið kynlíf

Hann segir fiskinn stóran en viðkvæman eftir hrygningu. Hann sé ekki lifrarmikill enda búinn að vera í átökum og miklu kynlífi. Hann er dasaður og blæðir dálítið illa. Ekkert los er samt í honum og hann er fínn til vinnslu.

„Það fer nú að gerast að hann sé genginn út á dýpri sjó. Þetta er aðeins í seinna fallinu núna en ég gæti trúað að hann væri horfinn upp úr næstu viku. Við Eyjar var hann genginn út 15. maí og það er víst árvisst að það gerist á þeim tíma. Það hefur líka verið ágæt ufsaveiði í Víkurál og út af Hala. Það er hefðbundið að halda þangað þegar þorskurinn hverfur úr grunnköntunum.“

Bárður skipstjóri kom á Flugbrautina síðastliðinn þriðjudag og var í sínu þriðja holi í renniblíðu þegar náðist í hann. Komin voru um 15 tonn af þorski í ker í lestina. Þorskurinn var enn á útleið og bátar farnir að fiska á snurvoð nær landi.

Fiskverð hríðfallið

„Ástandið er ágætt á miðunum akkúrat núna en með tilliti til þorskveiða var veturinn erfiður veðurfarslega séð. Það var hvasst og mikið af brælum eins og hefur sennilega ekki farið framhjá neinum. Ég hef alveg upplifað svona veður til sjós áður en ekki svona samfellt og í svo langan tíma. Flestir tala um það að þetta séu verstu veðurskilyrði sem þeir muna eftir. Það er mun meira álag á mannskapinn þegar alltaf er brjálað veður og þeir þreytast fyrr. Við vorum í því að flýja veðrið og komast á svæði þar sem hægt væri að draga

Drangey hefur verið með fasta löndunardaga á mánudögum en það er yfirleitt mjög góð veiði þegar fiskurinn er að ganga út og eru túrarnir þá styttri.

Bárður segir heimsfaraldurinn sem nú geisar ekki hafa haft áhrif mikil áhrif á framgang veiðanna. En eðli málsins samkvæmt sé sölutregða á afurðunum og fiskverð hríðfallið, jafnt á innanlandsmarkaði og erlendis. Það komi að sjálfsögðu niður á afkomu sjómanna. 15 eru í áhöfn Drangeyjar. Bárður segir þetta feykilega gott skip og vel heppnað í alla staði.

„Þetta er gott sjóskip og fer vel með mannskapinn. Það hefur líka skilað sínu í afla og aflaverðmætum frá því það kom.“