Tekist hefur að koma togskipinu Drangi ÁR á flot. Hann sökk við bryggju í Stöðvarfjarðarhöfn síðastliðinn sunnudag. Ennþá er verið að dæla úr skipinu en búist er við að því ljúki síðar í dag.

Þetta kemur fram í frétt Austurfréttar þar sem rætt er við Bjarna Stefán Vilhjálmsson, hafnarvörð á Stöðvarfirði. Bjarni Stefán segir í viðtalinu að um leið og Drangur er kominn á réttan kjöl og búið að þrífa skipið verði hugað að því að flytja hann til innan hafnarinnar.

Í frétt Austurfréttar segir jafnframt:

„Það kemur til greina að flytja Drang yfir í gömlu höfnina,“ segir Bjarni Stefán. „Það þarf allavega að koma skipinu af þeim stað sem það er núna þar sem sjógangur er hvað mestur í höfninni.“

Aðspurður um hvort búið sé að meta hve mikið af olíu hafi lekið úr Drangi segir Bjarni Stefán svo ekki vera.

Hvað flutning á Drangi innan hafnarinnar segir Bjarni Stefán að það muni líða einhver tími þar til slíkt verður gert.

„Það þarf fyrst að þrífa skipið og ganga vel frá því áður en við tökum ákvörðun um hvar það verður geymt í höfinni áður en Drangur verður fluttur suður,“ segir hann