Í Hálffimm fréttum Kaupþings er greint frá því að dráttarvextir eru nú hærri en þeir hafa verið síðan 1991. Í byrjun þessa mánaðar fóru dráttarvextir í 26,5% en þeir voru 27% í nóvember 1991.

Dráttarvextir geta breyst 1. janúar og 1. júlí ár hvert samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu og því munu dráttarvextir haldast í 26,5% fram til áramóta.

„Enn herðist róðurinn hjá skuldsettum fyrirtækjum og einstaklingum í því vaxtaumhverfi sem við búum við, einkum hjá þeim sem eru í vanskilum. Dráttarvextir af einni milljón króna eru nú 22.083 krónur á mánuði í stað 20.833 króna í júní,“ segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.