Einkaflug er áhugamál sem hefur farið vaxandi á síðustu árum og hafa fjölmargir tekið svokallað einkaflugmannspróf. Það gerir mönnum kleift að fljúga hvert á land sem er svo lengi sem þeir hafa aðgang að flugvél.

Áður fyrr var algengt að nokkrir, kannski 4-6 manns, keyptu sér saman flugvél. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er nú lítið um það en í staðinn njóta flugklúbbar vaxandi vinsælda.

Einn þessara klúbba er Geirflugl sem stofnaður var árið 1997 af sex flugmönnum en félagsmenn eru nú um 175.

„Við vildum brjóta upp þennan hefðbundna fjölda eigendafélaga úr 4-6 um hverja vél upp í 15 um hverja vél,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, formaður og tæknistjóri hjá Geirfugli og einn stofnenda klúbbsins í samtali við Viðskiptablaðið.

Geirfugl á í dag 8 flugvélar og eru því rúmlega 20 manns um hverja vél. Matthías segir áherslu vera lagða á að halda kostnaði í lágmarki á sama tíma og aðgengi að vélum félagsins sé töluvert. Þannig séu allir félagar jafnframt hluthafar í klúbbnum.

„Aðgengi að vélunum er forgangsmál, ekki nýtingin,“ segir Matthías og vísar til þess að ekki sé gert ráð fyrir að þeir sem hyggi á atvinnuflug noti klúbbinn til að safna flugtímum. Geri menn það þurfi þeir að greiða aukalega en hafi aftur á móti takmarkaðri aðgang að vélunum.

Hvað flugtímana varðar segir Matthías að aðeins sé greitt fyrir hvern flugtíma. Þannig geti félagar klúbbsins leigt vél, flogið henni á áfangastað, t.d. Þórsmörk, átt góða stund þar og flogið til baka síðar en þá er aðeins greitt fyrir flugtímana jafnvel þótt viðkomandi félagi hafi haft vélina til afnota í sólarhring (félagar mega mest vera með eina vél í 72 klst.)

Nánar er fjallað um málið í sérstakri umfjöllun um einkaflug í Viðskiptablaðinu.