Dregið var í milljónaveltu Happdrættis Háskóla Íslands í kvöld og kom vinningurinn á númerið 21945-H. Eigandi þess númers fær 70 milljónir króna í sinn hlut, sem samkvæmt tilkynningu er hæsti vinningur sem greiddur hefur verið út í íslensku happdrætti á þessu ári. Þá fékk annar heppinn miðaeigandi 25 milljónir króna í vinning á trompmiða og fjórir fengu 5 milljónir hver. Hér er hægt að skoða vinningaskrá HHÍ .

Í tilkynningu segir að alls hafi 3.318 heppnir miðaeigendur fengið vinning í desemberútdrætti Happdrættis Háskóla Íslands Heildarupphæð vinninga var um 209 milljónum króna, sem er hæsta upphæð sem greidd hefur verið út í sögu happdrættisins.

„Sjötíu milljónir er hæsti vinningur sem við höfum greitt út á einn miða á þessu ári. Vinningurinn kemur á besta tíma - svona rétt fyrir jólin,” er haft eftir Úlfari Gauta Haraldssyni, rekstrarstjóra flokkahappdrættis hjá HHÍ. „Við erum himinlifandi með útdráttinn enda höfum við aldrei greitt út jafn háa upphæð í vinninga í einum mánuði og hvað þá til svona margra miðaeigenda.”

Heildarupphæð útgreiddra vinninga á árinu hjá Happdrætti Háskóla Íslands nemur 1.372 milljónum króna sem skiptist á milli 39.260 heppinna miðaeigenda. Í tilkynningu segir að meginmarkmið happdrættisins sé efling Háskóla Íslands með byggingu húsnæðis og að útvega góðan tækjakost. Um einn milljarður króna af tekjum happdrættisins rennur árlega til Háskóla Íslands.