*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 3. maí 2018 13:06

Draumur að semja án átaka

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að draumurinn sé að geta náð löngum kjarasamningum án þess að til átaka komi.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Vinnuréttarlögfræðingar sem Viðskiptablaðið ræddi við sögðu ekkert vera lagalega því til fyrirstöðu að boðað yrði til skæruverkfalla með þeim hætti sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, boðaði í ræðu sinni þann 1. maí. Þar sagði hann: „Við boðum til baráttu sem hefur ekki sést í íslenskri verkalýðshreyfingu í áratugi.“

Þær kröfur sem gerðar eru til slíkra verkfalla væru að þau þyrfti að boða með réttum fyrirvara og þau samþykkt í atkvæðagreiðslu. Hins vegar sögðu þessir sömu lögfræðingar að erfitt gæti reynst að boða eingöngu til verkfalla hjá tilteknum hópum tiltekinna starfsmanna, þar sem líkur væru til að meirihluti allra félagsmanna VR þyrfti að samþykkja verkföllin. Ragnar Þór segir þetta hins vegar ekki vera vandamál.

„Við getum þess vegna sent einn mann í verkfall ef okkur sýnist. Það er innan þess lagaramma sem við störfum eftir. Eins og ég sagði í ræðunni 1. maí eru allsherjarverkföll úrelt og yrði engin skynsemi fyrir stéttarfélögin að hugsa svoleiðis. Það myndi tæma okkar verkfallssjóði hratt þótt við eigum digra sjóði,“ segir Ragnar Þór. Krefjast lægri vaxta „Það sem við erum einfaldlega að segja er að okkar kröfur eru mjög sanngjarnar og að ég held samfélaginu til góða, líka atvinnulífinu. Ég hefði viljað sjá meiri stuðning frá okkar viðsemjendum því okkar helstu kröfur snúa að stjórnvöldum um ákveðnar kerfisbreytingar þar. Við viljum til dæmis fara í vaxtalækkanir sem kæmu fyrirtækjunum vel ekki síður en almenningi. Það mun koma öllu samfélaginu vel því við erum að reyna að bæta ráðstöfunartekjur þeirra sem ná ekki endum saman og millitekjuhópa. Þá verður innspýting í atvinnulífið og verslun samhliða því. Við erum því að boða kröfugerð sem er mjög skynsamleg og sanngjörn.“

Hann segir verkalýðshreyfinguna meðvitaða um þörfina fyrir öflugt atvinnulíf. „Auðvitað virkar maður mjög herskár fram á við en við þurfum líka að stappa stálinu í fólkið okkar. Við verðum aldrei sterkari en fólkið sem er tilbúið að fylgja okkur. Við erum að horfa á þetta í víðara samhengi,“ segir Ragnar Þór.

„Við sjáum fyrir okkur þriggja til fjögurra ára kjarasamning. Það er viðhorf sem hefur ekki sést í langan tíma og er eitthvað sem stjórnvöld og atvinnulíf ættu að taka fagnandi. Ef menn rýna í það sem við erum að tala um held ég að þetta séu meira og minna kröfur sem menn ættu undir öllum eðlilegum kringumstæðum að geta sætt sig við og þá sérstaklega atvinnulífið.“ Í þessu samhengi vekur Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hins vegar athygli á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, og bendir á að þær kröfur sem Ragnar Þór teflir fram virðast helst snúa að stjórnvöldum.

„Samkvæmt 17. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur er stéttarfélögum óheimilt að boða verkfall til að þvinga stjórnvöld til að framkvæma eitthvað sem þeim er ekki skylt að gera. Yfirlýsingar um verkföll til að knýja á um lagasetningu eru því um boðun ólögmætra verkfalla,“ segir Halldór Benjamín. Ragnar Þór segir verkalýðshreyfinguna meðvitaða um þetta, enda muni verkalýðshreyfingin eingöngu gera kröfur á sína viðsemjendur, ekki stjórnvöld. „En lausnin liggur í að stjórnvöld komi að með kerfisbreytingar og leysi þetta þannig. Þá munum við breyta okkar kröfugerð gagnvart atvinnulífinu ef stjórnvöld eru tilbúin að koma inn í þessa sátt. Við þurfum að gera kröfur á atvinnulífið til að þrýsta á stjórnvöld til að koma að borðinu,“ segir Ragnar Þór. Hann leggur þó áherslu á að verkalýðshreyfingin sé tilbúin í átök ef með þurfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.