Á stofnári Viðskiptablaðsins, árið 1994, fór Sigríður Beinteinsdóttir í sína þriðju ferð fyrir hönd Íslands á Eurovision, en eins og fram hefur komið í viðtali við Siggu Beinteins eins og hún vill láta kalla sig, í 25 ára afmælisútgáfu Viðskiptablaðsins, var hún og hljómsveit hennar um þetta leiti að fylla Hótel Ísland og Þjóðleikhúskjallarann helgi eftir helgi marga vetur í röð.

Næst fór Sigga Beinteins út árið 2006, sem bakraddarsöngkona með Sylvíu Nótt, sem Ágústa Eva lék. „Það var alveg mögnuð ferð, alveg hrikalega skemmtileg, en á köflum var hún svolítið sérstök, því þessi leikaraskapur fór svo gjörsamlega úr böndunum.

Ég vil meina að ef þau hefðu leikið atriðið aðeins öðruvísi þá hefðu þau farið áfram upp úr riðlinum, því ég hafði tekið eftir því í þessar tvær vikur sem ég var úti í Kýpur fyrir keppnina að lagið var töluvert spilað í útvarpinu þar. En þegar þau byrja með þennan leikaraskap sinn á æfingunum úti, þá snerist þetta upp í andhverfu sína og þau fá alla á móti sér,“ segir Sigga sem telur ólíklegt að hún fari út aftur.

Fylgdist með keppninni frá því að var polli

„Ég hugsa að þetta sé komið gott, ég er svo mikil keppniskerling. Ég vil ekkert fara nema þá til að vinna, til að komast út og syngja fyrir landið mitt. Fyrir það fyrsta þarf maður að vinna hérna heima, og svo náttúrulega að komast upp úr riðlinum úti, sem er reyndar alveg sigur í sjálfu sér, þó maður fari ekki langt í aðalkeppninni sjálfri.

Ég hafði óskað mér síðan ég man eftir mér að fara í þessa keppni, og fylgst með henni alveg frá því að ég var lítill polli, löngu áður en Íslendingar tóku þátt. Enda hafði ég alltaf svo mikla tónlistardellu og fylgdist vel með í dagskránni til að sjá þegar það var tónlistartengt efni í útvarpi eða sjónvarpi. Síðan var það auðvitað algerlega truflað að fara sjálf í þessi spor og fara á þetta svið, enda fleiri milljónir sem horfa á, eins og þegar við fórum í fyrsta skipti út, en það var í Zagreb.“

Sögð klikkuð að flytja upp í sveit

Árið 1994 hafði einnig mótandi áhrif á líf Siggu á annan hátt, sem varir enn í dag. „Það hafði einnig alltaf verið mitt mottó frá því að ég var krakki, hvort það var eitthvað sem kom frá foreldrum mínum eða eitthvað, að eignast mitt eigið þak yfir höfuðið svo ég gæti haft það gott í ellinni. Á árunum á undan hafði ég farið svona tröppugang, og stækkað smátt og smátt við mig, fyrst keypti ég íbúð í Mávahlíðinni, og tók hana í gegn, og seldi hana svo, og árið 1990 flyt ég í Grettisgötu.

En ég varð fljótt leið á að vera í miðbænum, en á þessum tíma var miðbærinn ekkert sérstaklega eftirsóttur staður, og svo vissu allir hvar ég átti heima sem var orðið pirrandi, því það var verið að hringja á bjölluna allar nætur og spyrja hvort ekki væri partý og stuð,“ segir Sigga sem breytti því allverulega um þetta árið.

Flutti inn í hálfklárað hús

„Ég kaupi, í samfloti við systur mína sem býr úti í Noregi, hús í Smáranum í Kópavogi, sem þá var rétt fokhelt og glerjað og tilbúið að utan. Þetta var eiginlega eina húsið sem var komið í hverfinu og fólk spurði hvort ég væri klikkuð, að ætla að flytja þarna upp í sveit. En ég var búin að skoða deiliskipulagið og sagði þeim að þarna yrði byggð alveg rosa kringla og bensínstöð og blokkir og þetta yrði mjög flott hverfi þegar það væri uppbyggt.

Ég vann mikið í þessu sjálf, einangraði húsið til dæmis allt að innan sjálf, og svo er ég kominn af dúkalagningarfjölskyldu svo við setjum fíltteppi á allt gólfið til að drepa allt ryk. Síðan þegar búið var að leggja hita og rafmagn, þá flyt ég inn í það í ágúst 1994, allt hálfklárað og í drullu og ógeði.

Á þessum tíma var það þegar byrjað að fólk væri að byggja og klára allt strax og fór svo kannski á hausinn með allt saman, en ég fór varlega, tók til dæmis ekki fullt lán á húsið eins og ég hefði getað, og hef bara klárað það smátt og smátt eftir því sem ég hef átt peninga til.“

Krefst útsjónarsemi að lifa af tónlistinni

Sigga tók snemma ákvörðun um að hún ætlaði að lifa af tónlistinni, en hún segir það krefjast útsjónarsemi. „Það var búið að ganga mjög vel í bransanum þarna árin á undan og ég var búin að safna mér og búa til smá tekjur til að geta þetta, en ég veit ekki hvernig ungt fólk á að geta þetta í dag.

Ekki það að ég hafi grætt mikið á Eurovision, nema fullt af giggum hérna heima sem var og er frábært, enda þurfti ég að borga með mér í öll skiptin sem ég fór, eins og dressin mín og allt. Maður fékk á þessum tíma einhverja smotterísdagpeninga þegar maður fer út, veit ekki hvernig það er í dag,“ segir Sigga.

Byrjaði með jólatónleikana í hruninu

„Ef maður ætlar að halda sér á floti í þessum bransa og lifa á honum, þá verður maður alltaf að finna eitthvað að gera og búa eitthvað til. Núna er til dæmis öll svona geisladiska- og DVD-sala nánast búin , en ég hef verið að syngja í öllum geirum, til dæmis verið með barnaefni, og barnaskemmtanir. Við María Björk vorum með eitt vinsælasta barnaefni undanfarin 10 til 15 ár, Söngvaborgina og gefið út sjö diska sem við erum nú að vinna að því að koma í VOD leigurnar.

Síðan höfum við Guðrún Gunnars og Jógvan verið með dagskrá í nokkur ár sem heitir Við eigum samleið, þar sem við erum að syngja lögin sem allir elska, á milli þess að vera með smá grín og glens. Síðan er ég búin að vera með jólatónleikana mína frá 2009, þannig að þeir verða tíu ára í ár. Þarna fyrst eftir hrun datt allt niður og vinnan minnkaði mikið, og þá þurfti maður að leggja hausinn í bleyti og búa eitthvað skemmtilegt til.

En á uppgangstímum eins og hefur verið núna, er sem betur fer alltaf nóg að gera í alls konar framkomum, til að mynda í árshátíðum, brúðkaupum, þorrablótum og ýmsu. Í hruninu hætti fólk að fara til útlanda eins mikið og það gerði í mesta góðærinu, og minnkaði allt við sig. En ég tók eftir því að fólk fór að gera aðeins meira fyrir sig hér heima, fara á tónleika og út að borða og þess háttar, svo það má alltaf búa sér til tækifæri í tónlistinni.

Í dag eru svo margir ungir frambærilegir krakkar að koma upp í tónlist, og ég bara hvet fólk til að trúa á það sem það er að gera, halda áfram og ekki gefast upp. Það hefur líka sýnt sig í rannsóknum að börn og unglingar sem eru í tónlist leiðast síður út í alls konar vesen og vandræði. Tónlistin er alveg ótrúlegt afl.“

Viðtalið má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið .