Bygging stálpípuverksmiðju International Pipe and Tube á Íslandi ehf. (IPT) í Helguvík í Reykjanesbæ virðist nú endanlega vera út úr myndinni. Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar hefur ákveðið að afturkalla úthlutun lóðar til ITP sem ætluð var undir stálpípuverksmiðjuna. Lóðina mun höfnin nýta sem geymslusvæði vegna inn- og útflutnings m.a. vegna fyrirhugaðs álvers Century Aluminium sem nú eru hugmyndir um að reisa við Helguvík. Það fyrirtæki á og rekur álver Norðuráls í Hvalfirði.

Reykjanesbær gaf forsvarsmönnum IPT ítrekað frest á að ljúka fjármögnun sem alltaf var sögð rétt handan við hornið. Upphaflega voru nefndir bandarískir fjárfestar, síðan íslenskir bankar og síðast evrópskir bankar. Margítrekaður frestur rann út í júní í sumar og var þá enn óskað eftir fresti sem veittur var í haust af bæjaryfirvöldum, en með fyrirvara um að lóðin kynni að verða afturkölluð.

Á fundi atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar þann 5. desember sl. kom fram að formaður stjórnar og framkvæmdastjóri hafi skýrt frá stöðu mála hjá IPT. Unnið væri að því að ljúka fjármögnuninni og IPT hefði frest til 24. desember nk. Pétur Jóhannsson hafnarstjóri segir að þó fresturinn hafi verið til 24. desember, þá hafi frestur hugsanlegs fjármögnunaraðila runnið út 30. nóvember án þess að af samningum yrði. Því hafi verið útséð um að IPT næði að finna annan fjármögnunaraðila fyrir þann tíma.

-- Er þetta mál þá ekki endanlega farið út af borðinu?

"Hann er reyndar ekki búinn að blása það af. Við ræðum þá við hann um aðra lóð ef hann kemur með peninga."

Pétur segir að höfnin taki nú yfir lóðina sem gæti nýst að hluta vegna hugsanlegs álvers. Varðandi álvershugmyndina þá sé nú unnið að afmörkun lóðar og reiknað er með að frumskýrsla um umhverfismat muni liggja fyrir eftir miðjan febrúar nk. Áætlað er síðan að umhverfismatið vegna allt að 250 þúsund tonna álvers liggi fyrir á síðari hluta árs 2006.

"Ef allt gengur upp er áætlað að framkvæmdir geti hafist 2008. Þetta veltur þó á því hvað Hitaveita Suðurnesja getur verið fljót að útvega orkuna. Allavega er gert ráð fyrir að framleiðsla eigi að geta hafist árið 2010," segri Pétur.

Fjármagn aldrei fyrir hendi

Sagan um stálpípuverksmiðjuna hefur frá upphafi verið hálfgerð endaleysa. Forsvarsmenn verkefnisins höfðu á engum tímapunkti neitt í höndum um hvernig ætti að fjármagna verkefnið sem upphaflega var metið á 84 milljónir Bandaríkjadala, á þávirði 6,5 milljarða króna, þegar einkahlutafélag IPT með 500 þúsund króna hlutafé var stofnað hér á landi árið 2002. Reisa átti nærri níu þúsund fermetra stálpípuverksmiðju.

Í upphaflegum áformum, sem Valgerður Sverrisdóttir kynnti á ríkisstjórnarfundi 26. mars 2002, voru hugmyndir um 900 þúsund tonna framleiðslu af stálpípum til útflutnings úr hráefni frá verksmiðjum fyrirtækisins í Eystrasaltslöndunum. Gerður var lóðarsamningur 24. maí 2002 um 17.500 fermetra í Helguvík. Þá var búið að draga hressilega úr framleiðsluhugmyndum og miðað við 200 þúsund tonna árlega framleiðslu. Í vorskýrslu fjármálaráðuneytisins 2003 um þjóðarbúskapinn var sagt að útlit væri fyrir 175 þúsund tonna verksmiðju. Það eina sem virðist hins vegar hafa verið hægt að festa hendur á allan þennan tíma var heimasíða sem sett var upp fyrir IPT www.internationalpipeandtube.com.

Stórkostleg áform erlendra forsvarsmanna um að reisa hér á landi stálpípuverksmiðju svipaði mjög til hugmynda Tom Roseingrave og íslenskra stuðningsmanna hans vegna kælitækjaverksmiðjunnar Thermoplus í Reykjanesbæ sem lagði fram skýrslu fyrir íslenska fjárfesta um heimsyfirráð á markaði. Sú skýrsla var studd "úttekt" frá þekktu ráðgjafafyrirtæki hér á landi. Kælitækjaverksmiðjan fór á hausinn þar sem talið er að yfir milljarður króna hafi tapast. Engin opinber rannsókn fór fram á málinu þrátt fyrir ítrekaðar kærur fyrrverandi stjórnenda og tjónþola og vitneskju skiptastjóra um meintan stórþjófnað af lager fyrirtækisins í Bretlandi.