Lækkun á gengi krónunnar og hlutabréfa hefur nú byrjað að ganga til baka eftir miklar lækkanir í morgun. Úrvalsvísitala Kaupahallar Íslands sem í morgun hafði lækkað um allt að 6% hefur nú lækkað um 2,25%.Gengi krónunnar hafði um tíma í morgun lækkað um nærri 4,6% hefur nú lækkað um 2,58%.

Mesta lækkunin í dag hefur verið á gengi bréfa Kaupþings banka sem hafa lækkað um 3,26%, bréf Alfesca hafa lækkað um 3,23%, bréf Straums-Burðaráss um 3,03% bréf FL Group um 3,57%, og bréf Atorku um 2,48%.

Það er ný skýrsla frá greiningarfyrirtækinu Fitch, sem birtist í gær sem veldur þessari lækkun hlutabréfa og gengis. Að mati miðlara gefa þessi viðbrögð við skýrslunni vísbendingu um að markaðurinn sé yfirspenntur. Séu hreyfingarnar á markaðinum í morgun skoðaðar kemur í ljós að aðallega hafi verið losað um littlar stöður sem bendir til að almennir fjárfestar hafi verið að bregðast við tíðindum gærdagsins.

Enn sem komið er hafa það aðallega verið þau félög sem hafa hækkað gríðarlega frá áramótum sem hafa nú lækka sig t.d. Kaupþing banki og FL Group sem hafa hækkað um 30% til 40% frá áramótum. Sé þetta haft í huga er ljóst að þessi þróun hefur minni áhrif á markaðinn í heild til langs tíma litið en virðist vera í fljótu bragði.

Hinsvegar þarf það ekki að koma á óvart að nú þegar krónan hefur veikst eru útflutningsfyrirtækin að taka við sér en bréf Össur, Marel, Granda og Actavis hafa hækkað í dag. Að mati miðlara kemur þó á óvart að bréf Alfesca hafi ekki hækkað en það gæti verið að áhrif fuglaflensu í Frakklandi spili þar inní enda framleiðir félagið andalifur þar í landi.