Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur dregið úr væntingum um hagvöxt í Bandaríkjunum í kjölfar þess að dregið hefur úr líkum á að skattkerfisumbætur Donald Trump forseta landsins verði að lögum.

Sjóðurinn hafði fyrir nokkrum mánuðum hækkað væntingar sínar um hagvöxt í bandaríska hagkerfinu vegna væntinga um að stjórn Trump muni auka útgjöld. Lækkar sjóðurinn væntan hagvöxt í landinu fyrir þetta ár nú úr 2,3% í 2,1%, sem og fyrir næsta ár, úr 2,5% niður í 2,1%.

Tafist vegna deilna

Stjórn Trump hefur heitið því að ýta undir hagvöxt með því að koma umbótum í gegnum þingið í september, en hins vegar hafa deilur innan Repúblikana um breytingar á heilbrigðiskerfi landsins hafa tafið áætlanir stjórnarinnar. Einnig hafa rannsóknir á áhrifum Rússa á forsetakosningarnar í landinu tafið umbótaáætlanir stjórnvalda að því er FT greinir frá.

Árleg skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mælir með því að löggjafarvaldið ætti að styðja við bakið á áformum um grundvallarumbætur á bandaríska skattkerfinu, til að einföldunar og lækkunar á sköttum og draga úr undanþágum.

Eitt langlífasta hagvaxtartímabil sögunnar

Sjóðurinn segir að nú sé bandarískt hagkerfi í sínu þriðja langlífasta vaxtatímabili síðan árið 1850, þar sem raunvöxtur vergrar landsframleiðslu sé 12% hærri en á hápunkti síðustu uppsveiflu.

Hins vegar þyrftu miklar umbætur, því meira en helmingur íbúa hefði lægri tekjur, en árið 2000, ef horft er til verðbólgu, minni tækifæri eru til þess að vinna sig upp í hagkerfinu, og hlutfall fátækra, sem mælist 13,5%, er eitt það hæsta meðal þróaðri ríkja.