Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og stjórnarmaður í Glitni, dregur í efa að Seðlabankinn hafi heimildir samkvæmt lögum til að ákveða kaup á 75% hlut í Glitni og nota til þess gjaldeyrisvarasjóð bankans. Sigurður segir að auk þess þurfi heimild í fjáraukalögum eða fjárlögum frá Alþingi, sem kemur saman í dag, til þess að þessi 84 milljarða króna skuldbinding verði bindandi fyrir ríkissjóð.

„Mér finnst það ekki vera innan starfsheimilda seðlabankastjórans að ákveða hvað ríkisvaldið á að greiða á komandi árum úr sjóðum ríkisins," segir Sigurður. Hann segir jafnframt að Seðlabankinn hafi viðhaft einkennileg vinnubrögð í málinu. Hann hafi ekki haft fyrir því að leggja fram skrifleg tilboð gagnvart forsvarsmönnum Glitnis, heldur hafi menn þurft að fara með tilboð bankans „í munnlegri geymd" á fund stjórnar bankans, endursegja það þar, skrá niður og skrifa undir tilboðið þannig skráð.

„Ef horft er á tilkynninguna sem Seðlabankinn sendir frá sér, er það ekki ríkissjóður Íslands sem er kaupandi að þessum bréfum heldur Seðlabankinn," segir Sigurður. „Ég hef aldrei séð Alþingi og ríkisstjórn niðurlægð eins og við þessa aðgerð." Viðskiptablaðið reyndi árangurslaust í dag að fá svar bankastjórnar Seðlabankans við gagnrýni Sigurðar.