Stjórnmálaskýrendur eru nokkuð sammála um það að Barack Obama hafi staðið sig betur gegn Mitt Romney, forsetaefni Repúblikana, í þriðju og síðustu kappræðum þeirra í gærkvöldi en í fyrri skipti, svo ekki sé talað um fyrsta skiptið sem þeir hittust. Þar stóð Obama sig svo illa að bar af og var þeim líkt við það þegar Richard Nixon laut í lægra haldi gegn kvennaljómanum John F. Kennedy árið 1960. Ekki má þó skilja sem svo að Obama hafi staðið uppi með pálmann í höndunum. Þvert á móti átti hann góðan fyrri hálfleik og var munurinn naumur þegar upp var staðið, eins og stjórnmálaskýrandi breska dagblaðsins Guardian lýsir kvöldinu.

Fundurinn fjallaði að þessu sinni um stefnu þeirra í utanríkismálum. Þótt Obama hafi gagnrýnt Romney um tvístíganda í skoðunum og fyrir að vera ekki nógu vel að sér í þeim málaflokki þá þykir hann ekki hafa þjarmað að honum eins og tilefni var til.

Dregið hefur saman á milli þeirra Obama og Romney í skoðanakönnunum en ólíklegt þykir að kappræðurnar í nótt hafi breytt miklu þar um fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í næsta mánuði.