Þrátt fyrir að ríkisstjórn David Cameron í Bretlandi hafi lagt mikla áherslu á að viðhalda trausti fjárfesta á þarlendum ríkisskuldabréfum hefur honum ekki orðið erindi sem erfiði. Kollegi hans hinum megin Ermasunds, Francois Hollande, sem hefur kallað fjármálamarkaði óvini sína hefur hins vegar orðið meira ágengt í að bæta stöðu sinna ríkisskuldabréfa.

Í umfjöllun Bloomberg er bent á að ávöxtunarkrafa á frönsk tíu ára ríkisskuldabréf er nú aðeins átta punktum hærri en krafan á sambærileg bresk skuldabréf. Munurinn var 26 punktar í marslok og hefur því lækkað hratt í þessum mánuði. Kostnaður við að tryggja frönsku bréfin hefur lækkað um 16% í ár á meðan hann hefur hækkað um 15% á breskum bréfum.

Báðir leiðtogarnir hafa verið að takast á við hækkandi opinberar skuldir og lélegan hagvöxt, en Hollande segir að andstaða hans við aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum hafi forðað Frakklandi frá dýpri kreppu.