Bresku FTSE 100 og FTSE 250 vísitölurnar náðu methæðum þegar markaðir lokuðu í dag en pundið veiktist gagnvart dollaranum. Sterlingspundið hefur ekki veikst eins mikið síðan í apríl og er líkleg skýring á því að aukinn óvissa er í kringum þingkosningar í Bretlandi, sem að Theresa May, forsætisráðherra, boðaði óvænt til 18. apríl síðastliðinn.

Sterlingspundið veiktist um 1 prósentustig gagnvart Bandaríkjadal og var metið á 1,28 dali. Jafnframt hefur pundið veikst um 1,62 prósentustig gagnvart íslensku krónunni í dag og er kaupgengi pundsins 127,72 krónur.

Seint í gær var gerð opinber könnun YouGov þar sem að fram kom að stuðningur Íhaldsflokksins hafi dregist talsvert saman milli kannana og mælist nú 43 prósent en hins vegar hafi Verkamannaflokkurinn, undir stjórn Jeremy Corbyn bætt talsvert við sig og njóti nú 38 prósent fylgi. Munurinn á flokkunum er því orðinn ansi naumur eða fimm prósent. Þegar May boðaði óvænt til kosninga hafði hún 24 prósentustiga forskot á andstæðing sinn. YouGov sem framkvæmdi könnunina gerði þó fyrirvara að könnunin var gerð stuttu eftir hryðjuverkaárásina í Manchester, sem gæti haft áhrif á niðurstöður hennar. Stjórnmálaflokkarnir tveir hættu báðir kosningabaráttu sinni stuttu eftir sprenginguna.

Hagvöxtur í Bretlandi nam einungis 0,3% á fyrsta ársfjórðungi ársins, sem er minnsti hagvöxtur í heilt ár. Hagvöxturinn var jafnframt töluvert lægri en 0,7% hagvöxtur síðasta ársfjórðungs síðasta árs. Gengið verður til kosninga í Bretlandi 8. júní næstkomandi og kosningabarátta beggja flokka hófst á ný í dag eftir hryðjuverkaárásina.