Dregið hefur mjög skarpt úr útlánavexti í hagkerfinu, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka en hægari útlánavöxtur minnkar þenslu í hagkerfinu.

?Innlend útlán lánastofnana aukast um aðeins 1% milli mánaða í júlí leiðrétt er fyrir gengisáhrifum og verðbólgu. Erlend útlán dragast hins vegar saman milli mánaða sem má að mestu leyti skýra með styrkingu krónunnar," segir greiningardeildin.

Hún segir að skuldir heimilanna við innlánstofnanir hafi verið um 660 milljarðar króna í lok júlí og breytast lítillega milli mánaða, en stærsti hluti þeirra er verðtryggður, eða um 74%.

?Ef leiðrétt er fyrir verðbólgu og gengisáhrifum dregur að raunvirði úr skuldum heimila við innlánstofnanir í mánuðinum í fyrsta skipti síðan að bankarnir komu inn á húsnæðislánamarkaðinn í ágúst 2004. Verðtryggðar skuldir heimila við innlánstofnanir hafa vaxið um 42% að raunvirði síðustu tólf mánuði. Dregið hefur hratt úr vextinum á síðustu mánuðum en hann mældist mest í kringum 200% um mitt ár í fyrra. Það sem helst skýrir aukningu í innlendum útlánum í júlí er aukin útlán til þjónustufyrirtækja," segir greiningardeildin.

Hún segir að hægari útlánavöxtur ætti öllu jöfnu að draga úr þenslu í hagkerfinu. ?Almenningur hefur minna af fjármunum milli handanna sem ætti að hafa bein áhrif á einkaneyslu. Að undanförnu hafa komið fram vísbendingar um að heldur sé að draga úr neyslu landans, til að mynda dró úr kortaveltu í júlí frá fyrri mánuði. Neytendur samkvæmt væntingavísitölu Gallup hafa ekki verið jafn svartsýnir í fjögur ár og heldur hefur dregið úr innflutningi varanlegra neysluvara auk þess sem vöxtur bílainnflutnings hefur nánast stöðvast," segir greiningardeildin.

Þá telur hún að fleiri vísbendingar um samdrátt í einkaneyslu komi fram á sjónarsviðið á næstunni og reiknar því með að stýrivaxtahækkunum fari að linna.