Vöruskipti við útlönd voru hagstæð um 8,0 milljarða króna í október, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, sem birtar voru í morgun. Þetta er 3,6 milljörðum minna en í október í fyrra.

Samkvæmt þeim voru vörur fluttar út fyrir 52,7 milljarða króna en inn fyrir 44,6 milljarða.

Fyrstu tíu mánuði ársins eru vöruskipti við útlönd hagstæð um 89,5 milljarða króna. Þetta er 8,7 milljörðum minna en á sama tíma í fyrra. Verðmæti vöruútflutnings nam 512,6 milljörðum króna á tímabilinu. Verðmæti innflutnings nam 423,1 milljarði króna.

Sjávarafurðir voru 40,2% alls útflutnings og jókst verðmæti þeirra um 13,2% á milli ára. Útfluttar iðnaðarvörur, sem að mestu eru ál, voru 54,7% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 10,6% meira en á sama tíma árið áður.

Á sama tíma og verðmæti útflutnings jókst um 12,2% á milli ára hækkaði verðmæti innflutnings um 18,0%, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Upplýsingar Hagstofunnar