Vöruskipti við útlönd í mars voru hagstæð um tæpa 5,4 milljarða króna. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en afgangurinn nam 14,7 milljörðum króna á sama tíma í fyrra. Afgangurinn hefur numið rétt tæpum 13,7 milljörðum króna að meðaltali í mánuðinum síðastliðin þrjú ár. Þessu samkvæmt nam afgangur af vöruskiptum á fyrsta ársfjórðungi 28,1 milljarði króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Á sama tíma í fyrra nam afgangurinn 30,3 milljarði króna.

Í mars voru vörur fluttar inn fyrir 49,3 milljarða króna en út fyrir 54,6 milljarða. Á sama tíma í fyrra nam verðmæti innflutnings á óbreyttu gengi 45 milljörðum króna en verðmæti útflutnings 58,8 milljörðum króna.