Vöruskipti voru hagstæð um 3,5 milljarða króna í síðasta mánuði, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Gangi þetta eftir hefur afgangur af vöruskiptum ekki verið minni eftir að efnahagslífið fór á hliðina fyrir tæpum fjórum árum. Til samanburðar nam afgangur af vöruskiptum við útlönd 9,4 milljörðum króna í júlí í fyrra.

Samkvæmt bráðabirgðatölunum voru vörur fluttar inn fyrir 45,1 milljarð króna en út fyrir 48,6 milljarða.

Þessir 3,5 milljarðar króna bætast við þá 31,2 milljarða afgang af vöruskiptum á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagstofan birti tölurnar um vöruskiptaafganginn á fyrri hluta árs í morgun. Þær gefa til kynna að verulega hafi dregið úr afgangi af vöruskiptum því hann nam 48,4 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.