Atvinnuleysi á evrusvæðinu mældist 9,1% í júnímánuði og dróst saman um 0,1 prósentustig frá mánuðinum á undan. Hefur atvinnuleysi á svæðinu ekki verið lægra síðan í febrúar árið 2009. Atvinnuleysi dróst saman í öllum 19 löndum svæðisins fyrir utan Eistland. Þetta kemur fram í gögnum Eurostat.

Var atvinnuleysi í júní lægst í Þýskalandi eða 3,8% en hæst á Spáni þar sem það mældist 17,1%. Ekki voru tekin saman gögn yfir atvinnuleysi í Grikklandi í júnímánuði.

Í dag voru einnig birtar tölur yfir verðbólgu á evrusvæðinu í júlí. Mældist verðbólga 1,3% og stóð í stað frá mánuðinum á undan. Verðbólga er því enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Evrópu um 2% verðbólgu á ársgrundvelli.