Atvinnuleysi mældist 7,7% í Bretlandi í júlí. Þetta er 0,1 prósentustiga lækkun á milli mánaða. Staða á breskum vinnumarkaði er betri en gert var ráð fyrir en meðalspá Bloomberg hljóðaði upp á óbreytta stöðu.

Til samanburðar mældist 3,9% atvinnuleysi hér á landi í sama mánuði.

Bloomberg rifjar upp að atvinnuleysistölur séu komnar nálægt þeim 7% mörkum sem Mark Carney, seðlabankastjóri Englandsbanka, hefur sagt að verði miðað við þegar skoðað verði hvenær stýrivextir verði hækkaðir á nýjan leik. Ekki er þó gert ráð fyrir því að hróflað verði við vaxtastiginu fyrr en á seinni hluta árs 2016.