Talsvert dró úr bjartsýni neytenda í febrúar samkvæmt Væntingavísitölu Gallup sem birt var í morgun. Vísitalan lækkaði um 7,8 stig og stendur nú í 121,2 stigum. Nær allar undirvísitölur væntingavísitölunnar lækkuðu á milli mánaða. Mest dró þó úr væntingum til efnahagsástandsins eftir sex mánuði.

"Mögulegar skýringar á minni bjartsýni eru áberandi umræða um verðbólgu, ofmetna krónu og hækkun húsnæðisverðs að undanförnu. Væntingavísitalan stendur engu að síður hátt og gefur til kynna að einkaneysla sé mikil um þessar mundir og verði það áfram á næstunni, en sá mikli hagvöxtur sem verið hefur síðustu misseri er einkum drifinn af einkaneyslu og fjárfestingu," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.