Eftirspurn eftir gulli dróst saman um 15% á heimsmarkaði á milli ára í fyrra. Hún hefur ekki verið minni í fjögur ár, samkvæmt niðurstöðum könnunar á vegum samtaka gullmarkaðarins sem ber heitir World Gold Council. Breska dagblaðið Guardian fjallar um málið og segir að eftirspurn eftir gulli hafi aukist mikið í kreppunni eða allt frá árinu 2008 þegar hún skall á. Draga tók úr eftirspurninni þegar hlutabréfamarkaðir réttu úr kútnum.

Gullverð hefur þróast í takt við eftirspurnina. Það fór í 1.600 dali á únsu á heimsmarkaði í mars í fyrra en var um miðjan apríl, þegar hægt hafði á eftirspurninni, komið undir 1.400 dali á únsu. Um síðustu áramót var verðið svo komið undir 1.200 dali.